Nýr vefur Keldunnar stórbætir þjónustu við 100 þúsund notendur
Í dag kom út ný og mikið uppfærð útgáfa af Keldunni (www.keldan.is), sem er upplýsinga- og fréttaveita um viðskipti. Á nýjum vef er lögð mikil áhersla á stórbætta notendaupplifun og virkni í farsímum og spjaldtölvum í takt við auknar kröfur og væntingar netnotenda.
Mikill áhugi almennings
Áhugi almennings á hlutabréfamarkaðnum hefur aukist mjög mikið undanfarin ár sem birtist í mikilli fjölgun meðal notenda Keldunnar. Það er enda í takti við markmið Keldunnar, sem er að veita fljótt og örugglega vel skipulagðar og traustar upplýsingar sem allir hafa jafnan aðgang að.
Netnotendur í dag gera sífellt meiri kröfur um framúrskarandi upplifun á netinu, sem hefur ekki farið fram hjá forsvarsmönnum Kóða hf., sem heldur úti Keldunni.
„Það er afar ánægjulegt að hleypa loksins nýjum og glæsilegum vef af stokkunum eftir ítarlegar prófanir. Aðgengi, læsileiki og stórbætt notendaupplifun var aðalmarkmið okkar með nýjum vef Keldunnar. Við erum mjög spennt að fá viðbrögð yfir 100.000 notenda sem heimsækja vefinn í hverjum mánuði. Þróunin heldur þó áfram og margar spennandi nýjungar í pípunum sem við hlökkum til að kynna á næstu mánuðum”
Örn Þórðarson, tæknistjóri Kóða hf.
Rekstrarsaga yfir 20 þúsund íslenskra fyrirtækja
Undanfarin ár hefur Keldan safnað saman rekstrarsögu yfir tuttugu þúsund íslenskra fyrirtækja sem áskrifendur hafa aðgang að. Áskrifendur geta einnig nálgast skannaða ársreikninga gjaldfrjálst á Keldunni. Mörg fyrirtæki nýta upplýsingarnar til að meta nýja og mögulega viðskiptavini.
Um Kelduna
Keldan.is er upplýsinga- og fréttaveita um viðskipti sem er öllum opin. Á Keldunni er að finna meðal annars upplýsingar um gengi gjaldmiðla, séreignarsjóða og þróun hluta- og skuldabréfaverðs. Keldan er rekin af Kóða ehf., sem er leiðandi fyrirtæki á sviði þróunar fjártæknilausna og miðlunar markaðsupplýsinga um norrænan fjármálamarkað.